Umboðsmaðurinn og tónleikahaldarinn Þorsteinn Kragh situr nú í gæsluvarðhaldi í tengslum við smygl á 190 kílóum af hassi sem fundust í húsbíl um borð í Norrænu á Seyðisfirði þann 10.júní. Þorsteinn var úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald á miðvikudag.
Í kjölfarið kærði hann gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Hæstaréttar en Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldið í gær.
Þorsteinn hefur ekki komið við sögu lögreglu í viðlíka málum áður en smyglið í Norrænu er eitt það umfangsmesta sem komið hefur upp hér á landi.
Það var aldraður Hollendingur sem kom með efnin til landsins en samkvæmt heimildum Vísis er hann þekktur smyglari úr undirheimum Evrópu. Auk 190 kílóa af hassi fundust eitt og hálft kíló af maríjúana og eitt kíló af kókaíni.
Þorsteinn Kragh er þekktur tónleikahaldari og flutti meðal annars inni Placido Domingo og José Carrears hingað til lands og var eini íslendingurinn sem viðstaddur var útför Luiciano Pavarotti.
Þorsteinn var einnig þekktur umboðsmaður á árum áður og var meðal annars umboðsmaður hljómsveitarinnar GCD með Bubba Morthens og Rúnari Júlíussyni.