Innlent

Ríkisstjórnin styður menningu á landsbyggðinni í minningu Einars Odds

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Einar Oddur Kristjánsson.
Einar Oddur Kristjánsson. MYND/Stöð 2

Bautasteinn til minningar um Einar Odd Kristjánsson alþingismann var afhjúpaður á Flateyri við athöfn í dag en á mánudag er eitt ár síðan Einar Oddur lést. Steininum var valinn staður á Sólbakka þar sem hann bjó.

Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins standa í sameiningu að athöfninni en Einar Oddur var á sínum tíma formaður Vinnuveitendasambands Íslands og guðfaðir þjóðarsáttarsamninganna svokölluðu í febrúar 1990.

Geir H. Haarde forsætisráðherra var á staðnum og flutti ávarp og ræddi þar hugmyndir sem ríkisstjórnin hyggst hrinda í framkvæmd um sérstakan stuðning við menningu á landsbyggðinni sem upphaflega eru runnar undan rifjum Einars Odds.

Viljum taka hugmyndirnar upp á nýjan leik

„Ég var hér að spjalla um þær hugmyndir Einars Odds og fleiri sem voru með honum um hvernig mætti miðla menningarefni um landið, tónlist, leiklist og öðru," sagði Geir í samtali við Vísi. „Þeir voru búnir að forma ákveðnar hugmyndir um þetta sem síðan hafa legið í salti en við viljum gjarnan taka upp á nýjan leik og sjá hvort hægt er að hrinda í framkvæmd á nokkurra ára tímabili.

Þetta mun kosta einhverja peninga og jafnframt hugsanlega lagabreytingar og annað. Þetta gengur undir heitinu „Líf og list um landið". Einar var mikill kúltúrmaður, það má segja að það hafi verið hin hliðin á honum sem mun færri þekktu en þeir sem þekktu hann sem stjórnmálamann og atvinnurekanda. Hann var tónlistarunnandi mikill og fagurkeri og taldi að hágæðamenning ætti erindi út um land allt. Slík dreifing menningarefnis myndi svo gera búsetu á landsbyggðinni eftirsóknarverða," útskýrði Geir.

Hann sagði ákveðnar hugmyndir uppi um útfærslu hugmyndanna sem verið væri að skoða í forsætisráðuneytinu og mikill áhugi væri á að leggja verkefninu lið. Lagabreytingarnar sem hugsanlega þyrfti að gera skýrði Geir með því að fjármögnunin gæti kallað á þær, til dæmis ef ætlunin væri að nýta fjarskiptasjóð í því skyni.

Mikill hamingjudagur

„Þetta er skemmtilegt mál og mikill sómi að því fyrir minningu Einars Odds," sagði Geir að lokum og bætti því við að helstu hvatamenn Lífs og listar um landið væru Einar Oddur sjálfur, Jónas Ingimundarson píanóleikari, Bjarki Sveinbjörnsson útvarpsmaður, Víglundur Þorsteinsson, forstjóri BM Vallár, og Vigdís Esradóttir, forstöðumaður Salarins í Kópavogi.

Illugi Gunnarsson alþingismaður var staddur á Flateyri í dag og leyndi ekki ánægju sinni: „Þetta var mikill hamingjudagur hjá okkur í dag og einstaklega ánægjulegt að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið skuli hafa ákveðið að heiðra minningu Einars Odds. Hann lagði grunninn að því að meira traust væri á milli manna hjá Alþýðusambandinu og vinnuveitendum," sagði Illugi

„Sú hlið á Einari Oddi sem ekki sneri alltaf að almenningi var áhugi hans á góðri og sígildri tónlist. Hérna í frystihúsinu á Flateyri var til dæmis fjárfest í miklum og góðum flygli að undirlagi Einars Odds.

Það kom skýrt fram í dag að Einar Oddur hafi lagt mikinn grunn að menningarmálum á landsbyggðinni og þess vegna var það einkar ánægjulegt að það var tilkynnt nú á þessum degi að ríkisstjórnin hygðist leggja þessu lið með þessum hætti og að hafist yrði handa um þetta verk þótt auðvitað taki einhver ár að hrinda þessu í framkvæmd," sagði Illugi að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×