Innlent

Sakar frjálslynda á Akranesi um ómengaða útlendingaandúð

MYND/Anton Brink

Iðnaðarráðherra sakar Frjálslynda flokkinn á Akranesi um ómengaða útlendingaandúð, frekju og mannfyrirlitningu vegna andstöðu þeirra við móttöku flóttamanna frá Palestínu. Hann telur stöðu flokksins hafa veikst og Magnús Þór Hafsteinsson fyrirgert möguleika á að taka við forystu flokksins. Magnús Þór segist aldrei hafa fundið slíkan meðbyr sem nú.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra er stóryrtur í garð frjálslyndra á Akranesi í bloggfærslu frá því í gærkvöldi. Orðstír og heiður Sjálfstæðisflokksins á landsvísu hefði verið í veði ef bæjarfulltrúar hans hefðu beygt sig undir þá ómenguðu útlendingaandúð sem birtist í viðhorfum Frjálslynda flokksins á Skaganum.

Össur telur að málið eigi eftir að draga dilk á eftir sér. Það muni hafa áhrif á stöðu varaformannsins Magnúsar Þórs sem hafi misreiknað dæmið herfilega og glutrað niður sterkri stöðu frjálslyndra á Skaganum með dæmalausum hætti. Flumbruleg framganga hans hafi fordjarfað möguleika hans á að taka við sem formaður í fyllingu tímans.

Aldrei upplifað þvílíkan meðbyr 

Magnús Þór bregst skjótt við, engu minna stóryrtur, og skrifar á bloggi sínu undir fyrirsögninni Bilaður vindhani við Vesturgötu. Hann segir stöðumat Össurar kolrangt. Sjálfur segist Magnús aldrei hafa upplifað þvílíkan meðbyr með sínum málstað. Fólk stoppi hann ítrekað á götu til að taka í hönd hans, menn og konur komi í röðum og klappi honum á bakið, síminn stoppi ekki og tölvupóstar berist. Það færi honum næga vissu fyrir því að hann hafi gert skyldu sína sem stjórnmálamaður sem starfi fyrir almenning í þessu landi.

Hans pólitíski radar segi sér að flestir Skagamenn séu á öndverðum meiði við bæjarstjórnarfulltrúana sem séu að taka gerræðislega ákvörðun um móttöku á stórum hópi flóttafólks frá Írak.

Fjórtán af átján þeirra sem voru á lista Frjálslyndra á Akranesi sendu frá sér yfirlýsingu í morgun. Þeir lýsa fullum stuðningi við Magnús Þór Hafsteinsson og greinargerð hans um móttöku flóttafólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×