Innlent

Samgönguvika sett í dag

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi.

„Við viljum vekja fólk til umhugsunar um það hvort það geti selt einn bíl eða farið sjaldnar inn í borgina á bíl og séð sér hag í að hjóla i vinnuna," segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi.

Í dag klukkan tvö verður samgönguvika í Reykjavík formlega sett í Foldaskóla í Grafarvogi. Þetta er í sjötta sinn sem evrópsk samgönguvika er haldin, en að henni standa um 2.000 borgir víðsvegar í Evrópu. Þorbjörg Helga, sem er formaður Umhverfis- og Samgönguráðs Reykjavíkurborgar, setur Samgönguviku og afhendir hverfum ársins, Grafarvogi og Kjalarnesi, Samgöngublómið.

Yfirskrift samgönguvikunnar er „Hreint loft fyrir alla" og Þorbjörg segir að í því samhengi sé mjög mikilvægt að minnast á baráttuna við svifryk. Það málefni snerti sig sem formann leikskólaráðs því að þá daga sem svifrykið sé mest verði að loka leikskólabörn inni á deildunum. Ekki sé hægt að hleypa börnunum út að leika sér þegar svifrykið sé sem mest.

Þorbjörg segir að á föstudag muni svo rauða strætóreinin, sem unnið hefur verið að því að leggja í haust, verða opnuð. Þá muni umferð fyrir strætisvagnafarþega greikka verulega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×