Innlent

Fundað um uppbyggingu Afganistans í París

Leiðtogar áttatíu þjóðríkja og forvígismenn fjölmargra alþjóðasamtaka koma saman í París í dag til að ræða frekari fjárframlög til uppbygginar í Afganistan. Þarlendir vona að þeim verði heitið jafnvirði nærri tólf hundruð milljarða íslenskra króna í frekari aðstoð.

Það sem gæti valdið Hamid Karzai, forseta Afganistans, vandræðum er hins vegar spilling sem sérfræðingar segja landlæga í Afganistan. Alþjóðabankinn segir hana lama stjórn Karzais og grafa undan lögmæti hennar. Fé til uppbyggingar sé misnotað og því hafi jafnvel verið stolið. Hagsmunir einstaklinga og fyrirtækja en ekki Afgana sjálfra ráði því hvar og hvenær ráðist sé í framkvæmdir í landinu.

Frá því Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra réðust inn í Afganistan síðla árs 2001 og komu Talíbönum frá völdum hefur markmiðið verið að tryggja lýðræðislega stjórn í landinu og endurreisa það. Margir Afganar búa hins vegar enn í tjaldbúðum eða eru á vergangi tæpum sjö árum síðar.

Á fundinum í París biðla ráðamenn í Afganistan til alþjóðasamfélagsins og óska eftir fjárstuðningi. Vonast þeir eftir jafnvirði rúmlega tólf hundruð milljarða króna. Bandaríkjamenn, sem hafa lagt mest fé til endurreisnarstarfsins, hétu í morgun jafnvirði rúmlega áttahundruð milljarða króna í stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×