Innlent

Amnesty: Rafbyssur hluti af sársaukaiðnaðinum

Jóhanna K. Eyjólfsdóttir er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty.
Jóhanna K. Eyjólfsdóttir er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty.

Amnesty International segir rafbyssur vera hluta af ,,sársaukaiðnaðinum" og benda samtökin á að eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum hefur lýst yfir áhyggjum sínum af beitingu rafbyssa. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi Íslandsdeildar Amnesty.

,,Rafbyssum er oft beitt við aðstæður þar sem beiting vopna og jafnvel ekki kylfa væri réttlætanleg. Fjölmargar upplýsingar hafa komið fram um að lögreglumenn beiti rafbyssum á óviðeigandi og hrottafenginn hátt," segir í fréttabréfinu.

Amnesty segir að frá því í júní 2001 hafa meira en 300 einstaklingar látist í Bandaríkunum og 20 í Kanada eftir að hafa fengið í sig rafstuð. Fjöldin eykst á ári hverju. Samtökin benda þó á að ekki hafi með óyggjandi hætti tekist með að tengja öll dauðsföllin til rafbyssanna. Nefnd á vegum bandaríska dómsmálaráðuneytið fer nú yfir meira en 100 dauðsföll þar sem lögreglan hefur beitt rafbyssum eða öðrum rafvopnum.

Fram kemur á vefsíðunni taser.is að rafbyssur eru eitt mest rannsakaða valdbeitingartæki sem löggæslustofnanir nota. Í rannsókn sem framkvæmd var af UK Defense Science and Technology Laboratory var kannað hvaða áhrif rafbyssur hefur á mannshjartað. Niðurstöðurnar leiða í ljós að ólíklegt sé að tækið hafi yfir höfuð áhrif á hjartað.

Á vefsíðunni er einnig vitnað í samantekt sem unnin var af lögreglunni í Chico í Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem sjá má að 79% þeirra sem yfirbugaðir voru með kylfum slösuðust. Í þeim aðgerðum slösuðust um 2% lögreglumanna. ,,Þegar litið er til handtaka með lögreglubrögðum, slösuðust 53% hinna handteknu og 40% lögreglumanna. Í þeim tilfellum þar sem Taser rafbyssan er notuð, lækkar talan niður í 2% hjá hinum handteknu og enginn lögreglumaður slasaðist."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×