Innlent

Mikið að gera á hálendisvakt Landsbjargar

Nanna Hlín skrifar

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur verið með eftirlit uppi á hálendi Íslands í sumar sem lýkur núna 10. ágúst. „Það hefur gengið mjög vel en verið mjög annasamt hjá okkur," segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir hjá Landsbjörg. „Það hefur verið svolítið um leitir en einnig mikil aðstoð við ár, það hefur raunar verið staðið vakt við ákveðnar ár og bílar sem festast dregnir upp."

Björgunarsveitirnar hafa aðsetur á fjórum stöðum, Öskju, Nýjadal, Landmannalaugum og á Hveravöllum og keyra úr frá þeim stöðum. Er eftirlitið unnið í sjálfboðavinnu og vinnur hver viku í senn. Þetta er þriðja sumarið sem eftirlit er upp á hálendi og hefur það gefist mjög vel að sögn Ólafar. Sem dæmi um það nefnir hún að ekkert banaslys hafi verið uppi á hálendi í þeim tíma.

Það sem hefur komið mest á óvart síðustu sumur er hve margir erlendir ferðamenn fara upp á hálendið á fólksbifreiðum. Bílaleigubílar eru ekki tryggðir á fjallavegum og stendur það skýrum stöfum á stýrum þeirra en engu að síður fara ferðamenn upp á hálendi á þeim.

Að sögn Ólafar er jafnt um íslenska sem erlenda ferðamenn sem björgunarsveitirnar aðstoða. Þeir sem ferðast á eigin vegum upp á hálendi eiga einnig kost á því að leggja inn ferðaáætlun til björgunarsveita. Margir erlendir ferðamenn gera sér hins vegar ekki grein fyrir því. Þess vegna kemur stundum upp þær aðstæður að ekki sé vitað að fólk sé týnt fyrr en það mætir ekki í flug.

Ólöf nefnir að það komi erlendum ferðamönnum oft á óvart hve erfiðar aðstæður séu á Íslandi. Jafnvel þótt þeir hafi undirbúið sig áður. Björgunarsveitirnar halda uppi vefnum safetravel.is þar sem upplýsingar eru að finna á sex tungumálum um aðstæður á Íslandi. Landsbjörg reynir að auglýsa síðuna sem víðast en Ólöf nefnir að erfitt sé fyrir félagssamtök að ná til allra þeirra hundruð þúsunda sem koma til Íslands á hverju ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×