Innlent

Þarf að greiða bætur fyrir að hafa ráðið sig til keppinautar

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann til þess að greiða fyrrverandi vinnuveitanda sínum 1,3 milljónir króna í févíti fyrir að hafa brotið gegn ráðningarsamningi og ráðið sig til keppinautar vinnuveitandans innan tiltekins tíma. Vinnuveitandinn fór fram á rúmar 29 milljónir króna í bætur.

Maðurinn vann áður hjá Egilsson hf., sem meðal annars rekur Office One, og samkvæmt upphaflegum ráðningarsamningi var honum ekki heimilt í tvö ár eftir starfslok þar að hefja störf hjá keppinauti félagsins né stofna félag til samkeppni við Egilsson. Í samningnum kom einnig fram að brot á þessu ákvæði varðaði févíti allt að tíu prósentum af föstu mánaðarkaupi fyrir hvern dag.

Maðurinn var síðar gerður að rekstarstjóra Office One og var ekki gerður nýr samningur við hann. Í fyrrasumar sagði hann svo upp og réð sig 1. október hjá A4 sem áður hét Oddi.

Egilsson byggði mál sitt á því að miðað við mánaðarlaun mannsins ætti févíti mannsins miðað við tveggja ára að vera 29,2 milljónir króna. Maðurinn byggði hins vegar sýknukröfuna á því að ákvæðið væri brot á stjórnarskrárvörðum rétti hans til atvinnufrelsis. Á það féllst dómurinn ekki og bendir á að maðurinn hafi ekki orðið við áskorun Egilsson um að hætta hjá A4.

Segir dómurinn að við ákvörðun bóta verði litið til þess að maðurinn hafi ráðið sig sem launaðan starfsmann til samkeppnisaðila og starfað þar í þrjá mánuði en stofnaði ekki sitt eigi fyrirtæki. Að áliti dómsins þóttu hæfilegar bætur til Egilssonar 1,3 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×