Innlent

Segir Hvalfjarðargöngin hafa bætt búsetuskilyrði

Hvalfjarðargöngin hafa breytt byggðarmynstri og búsetuskilyrðum á suðvesturhorni landsins til hins betra að mati Gísla Gíslasonar stjórnarformanns Spalar. Hann segir að búið verði að greiða upp göngin eftir sex til sjö ár. Í gær voru nákvæmlega tíu ár liðin frá því Hvalfjarðargöngin voru opnuð - árið 1998.

Göngin voru upphaflega hönnuð fyrir umferð allt að átta þúsund bíla á dag. Frá upphafi hefur umferð hins vegar verið langt umfram spár og í fyrra keyrðu að meðaltali um fimm þúsund og fimm hundruð bílar um göngin á hverjum degi.

Spölur - sem rekur göngin - hefur látið frumhanna ný göng sem eiga að liggja örlítið innar í Hvalfirði. Fram kom í máli samgönguráðherra í fréttum Stöðvar 2 í gær að hann telji nauðsynlegt að hefja framkvæmdir á næstu fimm til tíu árum. Stjórnarformaður Spalar segir að núverandi göng séu fyrir löngu búin að sanna sig.

„Þessi göng hafa breytt byggðarmynstri og búsetuskilyrðum öllu til hins betra. Hér hefur íbúum fjölgað vestan og norðan Hvalfjarðar. Hér hefur lóða- og íbúðaverð hækkað, hér hefur sumarbústöðum fjölgað og ferðamennska dafnað og gagnvart höfuðborginni hefur það gerst að nú eiga menn greiða leið inn í höfuðborgina inn í skóla og vinnu án þess að flytja búferlum þannig að þetta hefur verið öllum til góða," sagði Gísli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×