Lífið

Bláberjavindlar í Drekasjoppu

Það er ekki allt sama tóbakið hjá Snorra Guðmundssyni.
Það er ekki allt sama tóbakið hjá Snorra Guðmundssyni. fréttablaðið/Arnþór

„Það eru engar ýkjur að sala á vafningstóbaki hefur þrefaldast síðustu mánuðina,“ segir Snorri Guðmundsson í söluturninum Drekanum á Njálsgötu. „Ég veit ekki hvernig þetta er annars staðar, en hér í 101 er fólk vant að vefja sér jónur. Tóbakið hefur hækkað svo gríðarlega á stuttu tímabili og þetta kemur lítið á óvart. Það er mikill sparnaður í að vefja sjálfur.“

Snorri hefur verið í sjoppurekstri lengi og þekkir þróunina í sölu vafningstóbaks. „Þegar ég vann á bensínstöð með pabba fyrir einum 15 árum seldist kannski einn pakki á viku, en núna fara allavega 80-100 pakkar á viku.“

Í Drekanum má fá tóbak frá Drum og Balishag, en Drum er uppselt á landinu eins og er. „Fólk er mikið að biðja um fleiri tegundir. Úti er hægt að fá 20-30 tegundir, til dæmis í Noregi þar sem ég þekki til.“

Þótt Snorri bjóði ekki upp á aðrar tóbakstegundir til að vefja býður hann upp á mikið úrval af alls konar framandi vafningspappír, bæði til að vefja sígarettur og vindla. „Við sérhæfum okkur í þessu og flytjum þetta inn sjálfir. Það selst glettilega mikið af þessu. Það er hægt að fá pappír með gríðarlega fjölbreyttu bragði, sirka hundrað tegundir. Það eru næstum allar hugsanlega bragðtegundir í þessu: vanillu, „cotton candy“, melónu og banana, svo ég nefni bara eitthvað.

Vindill með bláberjabragði, það er til dæmis ekki amalegt! Sumir eru að prófa hitt og þetta og stelpurnar eru mjög hrifnar af kirsu- og jarðaberjabragðinu.“

Snorri hefur ekki hugmynd um hvernig þetta smakkast því hann er löngu hættur að reykja. „Já, ég sigraðist á þeim djöfli. Nú sel ég bara öðrum hann í góðum fílingi!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.