Lífið

Sigga Beinteins selur fimmtíu þúsund

Sigga Beinteins og María Björk með vini sínum Masa. Þær hafa selt Söngvaborgar-diskana í hátt í fimmtíu þúsund eintökum.
Sigga Beinteins og María Björk með vini sínum Masa. Þær hafa selt Söngvaborgar-diskana í hátt í fimmtíu þúsund eintökum.

Hátt í fimmtíu þúsund eintök hafa selst af Söngvaborgar-mynddiskunum fimm sem Sigríður Beinteinsdóttir og María Björk Sverrisdóttir hafa gefið út á undanförnum árum.

Síðustu fjórir diskar hafa allir selst í platínu, eða yfir tíu þúsund eintökum, og sá nýjasti í röðinni er þegar kominn í þrjú þúsund eintök.

„Þetta hjálpar manni þegar maður er í þessum tónlistarbransa,“ segir Sigga, spurð hvort þetta sé ekki góður peningur í vasann. „Maður þarf að lifa og hrærast í öllu og mér finnst ofboðslega gaman að vinna með börnum. Krakkar eru svo hreinir og beinir og hjá þeim er allt annað hvort æðislegt eða glatað. Við sjáum á þessu að þau horfa á þetta aftur og aftur. Það er frábært að vita til þess að maður sé að gera rétta hluti,“ segir hún. „Það er rosalega gaman hvað fólk hefur tekið þessu vel og krakkar alveg elska þetta.“ Diskarnir, sem koma út annað hvert ár, eru ekki tengdir jólunum og seljast því jafnt og þétt yfir árið sem gerir vitaskuld gæfumuninn í þessari miklu sölu.

Á föstudag fóru þær Sigga og María á Barnaspítala Hringsins þar sem þær skemmtu börnunum með leik og söng eins og þær hafa gert undanfarin jól. „Við erum að reyna að gera eitthvað gott með þessu, sérstaklega eins og tímarnir eru núna,“ segir Sigga.

Nýverið var tilkynnt hverjir yrðu dómarar í næstu Idol-þáttaröð og var Sigga ekki í þeirra hópi. Hún segist alls ekki vera svekkt yfir því. „Að sjálfsögðu hefði ég viljað vera með enda var þetta ofboðslega skemmtilegur tími sem þau eiga eftir að kynnast þau sem taka þátt í þessu. Þetta verður ferlega skemmtilegt.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.