Innlent

Engin áform um að virkja Jökulsá á Fjöllum

MYND/GVA

Ríkisstjórnin hefur engin áform um að virkja Jökulsá á Fjöllum og Alþingi ekki heldur sagði Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Það var Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sem kvaddi sér hljóðs við upphaf fyrirspurnartíma og vísaði í utandagskrárumræðu um stóriðju- og virkjanamál í síðustu viku. Þá spurði Steingrímur hvort menn renndu hýru auga til Jökulsár á Fjöllum sem virkjunarkosts. Steingrímur sagði ráðherra þá hafa sagt að slíkt væru hugarórar hans eigin sjálfs.

Steingrímur vísaði til þess að á heimasíðu Landsvirkjunar kæmi fram að fyrirtækið hefði styrkt verkefni sem hefði yfirskriftina Jökulsá á fjöllum - hófleg nýting vatns. Spurði hann því hverju það sætti að Landsvirkjun veitti fé til virkjana sem gengju þvert á vilja Alþingis og einnig væntanlega ríkisstjórnar. Spurði hann iðnaðarráðherra hvort hann gæti ekki rætt við fjármálaráðherra um að senda Landsvirkjun eitt lettersbréf um að hætta þesttu.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra svaraði því til að Alþingi vildi ekki virkja Jökulsá á Fjöllum og það lægi alveg ljóst fyrir að ríkisstjórnin hefði ekki áform um slíkt. Hann hefði allt frá árinu 1994 sagt að ekki kæmi til greina að virkja ána. Sagði Össur enn fremur að hann væri fullfær um það sjálfur að koma þeim skilaboðum til Landsvirkjunar sem Steingrímur hefði lagt til að fjármálaráðherra gerði.

Steingrímur benti á að Landsvirkjun hagaði sér eins og ríki í ríkinu eins og svo oft áður og gengi þvert á stefnu stjórnvalda. Vert væri að vekja athygli á því hvernig þetta opinbera fyriræki hegðaði sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×