Innlent

Forseti Djíbútí með flesta fylgdarmenn í fyrra

Forsetar Íslands og Djíbútí í Orkuveituhúsinu í fyrra.
Forsetar Íslands og Djíbútí í Orkuveituhúsinu í fyrra.

Umfangsmesta heimsókn einstaks fyrirmennis fyrir lögreglu hingað til lands á síðasta ári reyndist heimsókn forseta Djíbútís, Ismails Omars Guelleh, í janúar á síðasta ári. Þetta kemur fram í ársskýrslu Ríkislögreglustjóra sem birt var í dag. Alls voru 27 manns í fylgdarliði forsetans, rúmlega helmingi fleiri en í heimsókn Jóhannesar Eidesgaards, lögmanns Færeyja, sem einnig kom í heimsókn í janúar.

Ríkislögreglustjóri segir nokkrar annir hafa verið hjá lögreglu vegna opinberra heimsókna og einkaheimsókna erlendra fyrirmenna á árinu. Lögreglan annaðist öryggisgæslu og umferðarfylgd vegna 13 heimsókna. Umfangsmesta heimsókn hóps reyndist haustfundur NATO-þingsins í október. Hann sóttu 850 gestir, þar á meðal 340 þingmenn frá NATO-ríkjunum ásamt framkvæmdastjóra NATO og forsætisráðherra Albaníu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu annaðist auk þess umferðarfylgd þegar 28 sendiherrar erlendra ríkja afhentu forseta Íslands trúnaðarbréf sín á Bessastöðum. Auk þess sá lögreglan á Suðurnesjum um sérstaka öryggisgæslu á meðan sex þjóðhöfðingjar og ráðherrar höfðu skamma viðdvöl í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×