Innlent

Útlitið í efnahagsmálum er svart

Útlitið í efnhagsmálum er svart og framundan erfið lending fyrir íslenska hagkerfið að mati iðnaðarráðherra. Verulega hefur hægt á íslenska hagkerfinu það sem af er þessu ári eftir mikinn og langan þenslutíma. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur fallið um 60 prósent á einu ári og þá hefur krónan veikst verulega frá áramótum.

„Sjálfur tel ég þó að útlitið sé svart og dreg enga dul á það að framundan sé erfið lending fyrir íslenska efnhaginn þá sýnist mér samt sem áður að stóru bankarnir að þeir séu að komast í gegnum brimskaflana og ég vænti þess að það fari að rofa til á erlendum strax í haust en hjá okkur gerist það ekki fyrr en fyrsta lagi um mitt næsta ár," segir Össur.

Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi í efnhagsmálum og hafa bankarnir meðal annars kallað eftir 500 milljarða króna láni sem nota á til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans. Heimild til lántökunnar var samþykkt á vorþingi en heimildin hefur enn ekki verið nýtt.

„Ég man ekki betur heldur en síðast þegar menn hérna á Íslandi réðust í það að stækka gjaldeyrisforðannn svo um munaði þá var sú ákvörðun tekin og kynnt í mars. en lánið var ekki tekið fyrr en í nóvember," segir Össur. Hann segir því að ekki sé verið að bregða að því leytinu til út frá hefðbundni vinnu í þessu sambandi. Menn muni gera þetta á réttum tíma þegar aðstæður eru hagfelldar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×