Innlent

Skora á Karen að segja af sér sem bæjarfulltrúi

Bæjarmálafélag Frjálslyndra og óháðra á Akranesi lýsir yfir fullum stuðningi við Magnús Þór Hafsteinsson, varabæjarfulltrúa og formann félagsmálaráðs Akraness, og skorar á Karen Jónsdóttur, fyrrverandi bæjarfulltrúa bandalagsins, að segja af sér.

Í tilkynningu segist félagið sammála greinargerð sem Magnús Þór lagði fram vegna komu palestínskra flóttamanna til Akraness, en þar lýsir hann sig andsnúinn komu fólksins. Þá mótmælir bæjarmálafélagið því sem það kallar valdarán á Akranesi þegar Karen Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra, gekk til liðs við Sjálfstæðisflokkinn fyrr í vikunni. „Við sem unnum ötullega að framboði listans teljum að hún hafi með þessu brugðist trausti bæði kjósenda, og okkar sem öfluðum henni brautargengis," segir í tilkynningunni.

Þá harmar bæjarfélagið að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að eyðileggja meirihlutasamstarf sitt við frjálslynda og óháða og skorar á Karen Jónsdóttur að segja af sér bæjarfulltrúi. „Þau 9,3 prósent kjósenda á Akranesi sem greiddu lista Frjálslyndra og óháðra atkvæði sitt í síðustu bæjarstjórnarkosningum voru ekki að veita Sjálfstæðisflokknum umboð sitt," segir í tilkynningu bæjarmálafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×