Innlent

Neyðarsendir settur í gang í leik eða af óvitaskap

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/Vilhelm

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar var í gær með töluverðan viðbúnað vegna boða frá neyðarsendi við Snæfellsnes.

Fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni að reynt hafi verið að staðsetja boðin eins nákvæmlega og kostur var en illa gekk að staðsetja sendinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á staðinn, lögregla var í viðbragðsstöðu, Björgunarsveitin Lífsbjörg í Snæfellsbæ fór til leitar og skip og flugvélar á svæðinu svipuðust um. Stöðvar á Norður-Atlantshafssvæðinu, sem námu boðin voru einnig í viðbragðsstöðu.

Neyðarsendirinn fannst svo eftir um tveggja klukkustunda leit bundinn utan á sorpgám á sorphaugum á Rifi á Snæfellsnesi. Segir Gæslan ljóst að sendirinn hafi verið gangsettur af ásettu ráði, í leik eða óvitaskap. Mál af þessu tagi séu grafalvarleg enda sé með þessu verið að sóa verðmætum tíma viðbragðsaðila og misnota búnað til leitar og björgunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×