Skoðun

„Forvirkar aðgerðir“

Embættismenn og ráðherra geta vísað út og suður í paragröff og þóst bundnir af - til Dyflinnar, Rómar eða Brussel - en það fær því samt ekkert breytt að mannvonskan kemur ekki að utan. Hún kemur að innan.

Að því hlaut að koma fyrr eða síðar að það vinnulag sem Íslendingar hafa tamið sér við afgreiðslu umsókna um pólitískt hæli hér á landi kæmi Birni Bjarnasyni og starfsmönnum hans í veruleg vandræði. Nánast án undantekninga hafa Íslendingar nýtt sér klásúlu í einhverjum Schengen-viðauka sem Björn kallar því ábúðarfulla nafni „Dyflinnarsamninginn" og mun kveða á um að heimilt sé að senda flóttamann aftur til þess lands sem fyrst tók á móti honum, jafnvel þótt viðkomandi hyggist ekki leita þar hælis.

Með þessu móti koma íslenskir embættismenn sér undan því að taka afstöðu til umsóknar viðkomandi flóttamanns. Þetta er mjög þægilegt: nei því miður, við hér erum bundin af Dyflinnarsamningnum og getum ekki einu sinni velt aðstæðum þínum fyrir okkur. Vertu úti.

Við þessi eldri munum Gervasoni-málið (blaðamenn: hvar er hann nú?) sem kom upp 1980 í tíð ríkisstjórnar vinstri flokkanna og einhvers konar Sjálfstæðisflokks; Frakki sem neitaði að gegna herþjónustu í landi sínu og átti yfir höfði sér fangelsi. Með samstilltu átaki tókst að beygja ríkisstjórnina þá til að veita honum pólitískt hæli, en þess ber að geta að í þáverandi meirihluta var kona að nafni Guðrún Helgadóttir sem lét samvisku sína og réttlætiskennd ráða för, og hótaði einfaldlega stjórnarslitum.

Þegar kemur að máli keníska flóttamannsins Pauls Ramses er hins vegar ekki að sjá að neinn almennur þingmaður eða ráðherra hyggist standa uppi í hárinu á Birni Bjarnasyni og hans liðsmönnum. Kunnugleg orð úr nýlegri íslenskri stjórnmálasögu koma óneitanlega upp í hugann í því sambandi: „gunga" og „drusla".

Hvernig sem embættismenn og ráðherra reyna að snúa sig út úr því, teygja og toga og vísa út og suður þá blasir við stórslys: íslenskir embættismenn hafa sundrað ungri fjölskyldu algjörlega að ástæðulausu. Íslenskir embættismenn hafa rekið ungan heimilisföður, sem hafði verið svo fákænn að treysta á íslenska mannúð, frá konu og nýfæddum syni með vísan í fyrrgreindar heimildir kenndar við Dyflinni, og litlar líkur á öðru en að hann verði aftur sendur til Keníu þar sem hann óttast um líf sitt.

Er þetta óþjóðalýður? Skyldi þetta vera glæpamaður af því tagi sem hin vökula „greiningadeild Ríkislögreglustjóra" segir okkur að séu að að hreiðra um sig hér á landi? Það er nú öðru nær: fólk sem kynni hefur haft af honum virðist ljúka upp einum munni um að þetta fari mannkostamaður - til að mynda íhaldsmaðurinn gáfaði Atli Harðarson, heimspekingur og skólamaður á Akranesi, sem kynntist Paul gegnum son sinn og lýsir honum á bloggsíðu sinni sem „grandvörum og vel gefnum manni".

Þessi harka í garð þeirra sem hér leita ásjár er náttúrlega ekki ný af nálinni. Framkoma Íslendinga við gyðinga sem komust hingað á flótta undan nasistum á sínum tíma er smánarblettur á sögu þjóðarinnar eins og Einar Heimisson sagnfræðingur dró fram á sínum tíma. Þeir gyðingar og mið-Evrópumenn sem þó náðu að festa hér rætur á fyrri hluta tuttugustu aldar urðu hins vegar ómetanlegri fyrir íslenska menningu - til dæmis er erfitt að ímynda sér hvernig þróun íslenskrar tónlistar hefði orðið án þeirra.

Smám saman hefur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skapað uggvænlegt andrúmsloft kringum störf sín og þeirra deilda sem undir hann heyra. Nú síðast kynnti ráðherrann fyrir okkur hugtakið „forvirkar aðgerðir" í framhaldi af skýrslu „greiningadeildar ríkislögreglustjóra" um hryðjuverkaógn sem deildin neyddist þó til að játa að sé nær engin hér: „forvirknin" hljómar kunnuglega fyrir þá sem fylgst hafa með umræðum í Bandaríkjunum þar sem aðgerðir Bush-stjórnarinnar á borð við Íraksstríð, hleranir, njósnir og hvers kyns afnám borgaralegra réttinda eru kallaðar „pre-emptive". Ekki er langt síðan sami Björn og nú biður um heimildir til „forvirkra aðgerða" upplýsti okkur um að hann teldi að fólk eins og Þórhildur Þorleifsdóttir og Arnar Jónsson, Úlfur og Helga Hjörvar, Lúðvík, Eðvarð, Hannibal og Finnbogi Rútur (fyrir utan öll hin sem enn á eftir að upplýsa um) hefðu á sínum tíma ógnað þjóðarhagsmunum, verið glæpamenn og átt símhleranir skilið. Samfylkingunni virðist þykja í lagi að við eigum það undir dómgreind þessa manns hverjir eiga í vændum að verða fyrir „forvirkum aðgerðum".

En í tilfelli Paul Ramses og fjölskyldu hans hafa „forvirkar aðgerðir" svo sannarlega þegar skilað sínum árangri.








Skoðun

Sjá meira


×