Innlent

Gagnrýna launamun hjá ríkinu og á hinum almenna markaði

Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. MYND/Völundur
Trúnaðarmannaráð SFR fundaði í dag. Á fundinum voru niðurstöður úr nýrri launakönnun SFR kynntar og að auki niðurstöður úr samanburði milli félaga í SFR og VR, að því er fram kemur í tilkynningu frá SFR. Í henni kemur meðal annars fram að þegar félagsmenn þessara stéttarfélaga eru skoðaðir þá kemur fram að starfsmenn ríkisins eru að meðaltali með 20% lægri laun en starfsmenn almenna markaðarins þegar sambærilegar stéttir eru skoðaðar. Þá var launamunur kynjanna hjá ríkinu einnig gagnrýndur harðlega.

Í ályktun sem samþykkt var á fundinum bendir trúnaðarmannaráðið á að óásættanlegur munur sé á milli launa starfsmanna ríkisins og starfsmanna á almennum markaði. „Starfsmenn ríkisins hafa lengi búið við lægri laun en starfsmenn á almennum markaði og í nýrri launakönnun SFR kemur fram að þessi munur er allt að 27% milli sambærilegra stétta. Að meðaltali er munurinn 20%. Í gegnum tíðina hefur ríkið réttlætt þetta ranglæti með því að halda fram að réttindi ríkisstarfsmanna væru svo mikil að þeir verðskulduðu ekki hærri laun! Þessi röksemd er fjarri öllu lagi og staðreyndir sýna að réttindi starfsmanna á almennum markaði eru í dag ekki svo frábrugðin réttindum ríkisstarfsmanna. Launamunur upp á 20% að meðaltali verður ekki réttlættur með þeim rökum," segir í ályktuninni.

„Trúnaðarmannaráð SFR gerir þá sjálfssögðu kröfu, að launamunur milli starfsmanna ríkisins og starfsmanna á almennum markaði verði leiðréttur." segir einnig.

Þá var einnig ályktað um launamun kynjanna en í könuninni kom fram að sá munur sé vaxandi og viðvarandi vandamál hjá ríkinu. „Trúnaðarmannaráð SFR lítur það mjög alvarlegum augum að ríkið skuli láta þetta ástand viðgangast. Konur hafa samkvæmt launakönnuninni um 27% lægri heildarlaun en karlar. Þessi munur lækkar niður í 17,2% þegar tekið hefur verið tillit til allra þeirra þátta sem skýrt geta muninn. Sambærileg tala frá síðustu könnun er 14,3% og hefur launamunurinn því aukist um 3 prósentustig á einu ári. Þetta ástand er mjög alvarlegt og algerlega óásættanlegt. Á sama tíma hefur ríkisstjórn Íslands heitið því að draga úr og afmá launamun kynjanna," segir í ályktuninni.

„Trúnaðarmannaráð SFR gerir þá sjálfssögðu kröfu að ríkisvaldið taki þau skref sem duga til að vinna á launamuni kynjanna. S FR - stéttarfélag í almannaþjónustu hefur ítrekað bent á að leiðrétting á launamuni kynjanna verður ekki gerð nema með því að setja fjármuni í verkefnið og hækka laun kvennastétta sérstaklega. Ljóst er að hinar fjölmennari kvennastéttir í umönnunarstörfum, í félagsþjónustu s.s. við málefni fatlaðra og í skrifstofustörfum eru þær stéttir sem misréttið bitnar harðast á. Kjör þessara stétta þarf að lagfæra án tafar," segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×