Innlent

Pólsk hjón í farbanni vegna Þorlákshafnarárásar

Héraðsdómur Suðurlands féllst ekki á þá kröfu lögreglunnar á Selfossi á föstudag að pólsk hjón, sem grunuð um árás á samlanda þeirra í Þorlákshöfn aðfaranótt sunnudagsins 14. september, skyldu sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Hins vegar voru þau úrskurðuð í farbann til 1. desember.

Árásin átti sér stað í heimahúsi en þar var fórnarlambið stungið og skorið með lagvopni. Samkvæmt gæsluvarðhaldsúrskurði var árásin gróf og hending ein að fórnarlambið skyldi ekki látast.

Fimm manns, þrjár konur og tveir karlar frá Póllandi, sátu um tíma í gæsluvarðhaldi vegna málsins en þremur var sleppt í síðustu viku. Hins vegar var farið fram á varðhald yfir hjónunum þar sem grunur leikur á að annaðhvort þeirra eða bæði hafi átti aðild að árásinni.

Það hefur torveldað rannsókn lögreglu að fólkið hefur lítið viljað tjá sig um atburðina og þá hefur komið fram mikið misræmi í frásögnum þess. Ofan á þetta bætist að fórnarlambið sjálft er tregt til að tjá sig.

Rannsókn málsins er mjög langt komin og verið er að vinna úr gögnum sem aflað var með tæknirannsóknum. Að því loknu verður málið sent til saksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákært verði í málinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×