Innlent

Þríbrotinn með marið lunga eftir fall úr leiktæki

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Okkur var sagt þarna að við værum öruggari í garðinum en í rútunni á leiðinni heim en það var nú ekki alveg rétt," segir Hafsteinn G. Hauksson sem nef-, handleggs- og rifbeinsbrotnaði þegar hann féll úr leiktæki í Adrenalíngarðinum á Nesjavöllum í gærkvöldi. Auk brotanna marðist lunga í Hafsteini og hann finnur til eymsla víða um líkamann.

 

„Ég fer þarna í leiktæki sem heitir Fljúgandi íkorninn og það sem gerist er að öryggisbúnaðurinn sem heldur mér uppi brestur," segir Hafsteinn. Umrætt tæki virkar þannig að fólk er híft upp í nokkurra metra hæð í talíu þar sem það svo hangir og snýst í hringi.

 

Hafsteinn segir að svo virðist sem vír sem talíurnar hanga í hafi gefið sig. Hann áætlar að fall hans hafi verið rúmir fimm metrar niður á grasflöt og var höggið töluvert. „Ég fann sársauka um allan líkamann, mest í brjóstinu, en átta mig annars ekki nákvæmlega á því hvernig ég lenti," útskýrir Hafsteinn.

 

Lögregla var ekki kvödd til en Hafsteini var komið á sjúkrahús af starfsmönnum Adrenalíngarðsins „Starfsmönnunum leist ekki á verkina sem ég hafði svo einn þeirra keyrði mig í bæinn og á slysadeild," segir Hafsteinn.

 

Hann hafði samband við lögreglu höfuðborgarsvæðisins og hefur verið boðaður þangað í skýrslutöku á mánudaginn. „Þegar manni er tilkynnt að maður sé alveg öruggur en þríbrotnar svo og merst á lunga skoðar maður eðlilega þá möguleika sem maður hefur til að fá einhverjar bætur," segir Hafsteinn.

 

Hann segist ekki hafa haft samband við starfsmenn Adrenalíngarðsins eftir atvikið en móðir hans hafi hins vegar rætt við þá. Einnig hafi fyrirsvarsmenn garðsins heimsótt hann á spítalann og þar látið þau orð falla að vilji þeirra stæði til að greiða sjúkrakostnað Hafsteins.

 

Ekki náðist samband við starfsfólk eða skrifstofu Adrenalíngarðsins við vinnslu fréttarinnar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×