Innlent

Fjórir sakfelldir fyrir þjófnað á bensínstöð

MYND/GVA

Héraðsdómur Vestfjarða hefur sakfellt fjóra unga karlmenn fyrir þjófnaðarbrot fyrr á þessu ári. Einn þeirra var enn fremur sakfelldur fyrir brot á siglingalögum.

Samkvæmt ákæru stálu mennirnir um 850 þúsund krónum úr peningaskáp bensínstöðvar N1 á Ísafirði í maí. Einn piltanna var starfsmaður þar og samþykkti að áeggjan tveggja mannanna að skilja eftir ólæsta hurð þegar hann færi heim. Mennirnir tveir fóru þá inn og stálu fjármununum á meðan fjórði maðurinn stóð á verði.

Þá voru þrír piltanna ákærðir fyrir að hafa í sameiningu stolið 11 ljóskösturum af tveimur bílum að verðmæti um 250 þúsund krónur. Einn þeirra hafði skömmu áður stolið fjórum ljóskösturum að öðrum bílanna sem er í eigu útgerðarfélags. Sá var einnig ákræður fyrir að hafa stjórnað fiskibát frá Súðavíkurhöfn að Sundahöfn í Skutulsfirði án þess að hafa tilskilinn réttindi.

Mennirnir játuðu greiðlega á sig brotin. Einn þeirra hlaut þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm, annar tveggja mánaða dóm, sá þriðji einn mánuð og ákvörðun um refsingu hins fjórða var frestað haldi hann skilorð í tvö ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×