Innlent

Starfsmenn Sólfells segja eigendur ætla að keyra fyrirtækið í þrot

Stjórnendur Ans fóru yfir stöðuna hjá fyrirtækinu á fundi með starfsmönnum í vikunni.
Stjórnendur Ans fóru yfir stöðuna hjá fyrirtækinu á fundi með starfsmönnum í vikunni. MYND/eiríkur kristófersson

Starfsmenn verktakafyrirtækisins Sólfells í Borgarnesi saka móðurfyrirtæki þess um að ætla að sölsa undir sig eignir fyrirtæksins og keyra það í þrot. Öllum 35 starfsmönnum Sólfells var sagt upp störfum í síðustu viku og er mikil reiði meðal starfsmanna.

Sólfell hefur frá áramótum verið rekið sem sjálfstætt dótturfélag Ans ehf. Sameining var fyrirhuguð á næstunni en í síðustu viku var öllum starfsmönnum Sólfells sagt upp fyrirvaralaust og stefnir fyrirtækið í gjaldþrot á næstunni.

Fréttastofa hefur undanfarna daga talað við fjölmarga sem tengjast Sólfelli á einn eða annan hátt og það sem kemur þeim mest á óvart er tal um slæma fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Fullyrða þeir að reksturinn hafi verið í góðu jafnvægi undanfarin ár.

Þeir óttast að markmið Ans sé að keyra Sólfell í þrot til þess eins að hirða eignir fyrirtækisins sem eru umtalsverðar.Heimildamenn fréttastofu fullyrða að ýmsar óvenjulegar og vafasamar bókhaldsfærslur hafi verið gerðar af forsvarsmönnum Ans eða að beiðni þeirra. Þannig bárust engar kvittanir fyrir úttektum af reikningum Sólfells á skrifstofu fyrirtækisins í Borgarnesi frá áramótum, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis. Í kjölfarið hafi innheimtukröfur í nafni fyrirtækisins hlaðist upp.

Jón Pálsson, stjórnarformaður Ans, vísar þessum ásökunum á bug. Það sé af og frá að staða Sólfells hafi verið góð þegar Ans tók yfir reksturinn en staðan hafi hins vegar verið mun verri en áður var talið. Meðal annars þar sem virði útistandandi verka hafi verið ofmetið í bókhaldi félagsins.

Jón segir Ans hafa tapað tugum milljóna á því að reyna að halda rekstrinum gangandi. Þar að auki eru allar eignir Sólfells veðsettar og þær er ekki hægt að taka nema með samþykki kröfuhafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×