Innlent

Ísland boðar gæfu fyrir botni Miðjarðarhafs

Kristinn Hrafnsson skrifar
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna
Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna

„Ísland boðar gæfu fyrir friðarviðræður Palestínumanna og Ísraela," segir Yassir Najjar, sendiherra heimastjórnar Palestínumanna gagnvart Íslandi, í samtali við Vísi. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, kemur til Íslands á morgun og hefur Najjar verið að undirbúa heimsóknina.

Í morgun bárust þau mikilvægu tíðindi frá Sýrlandi að útlægur leiðtogi Hamas, Kahled Meshal, væri reiðubúin að fallast á niðurstöðu friðarviðræðna. „Þetta er ákaflega mikilvæg yfirlýsing," segir sendiherrann en til þessa hefur Hamas ekki ljáð máls á að styðja Abbas, fulltrúa Fatah, hófsamari arms Palestínumanna, í friðarviðræðum. Najjar segir að svo virðist sem Íslandsheimsóknin hafi þarna borið gæfu með sér og segist vonast til þess að nú fari í hönd viðræður sem leiði til friðar.

Aðkoma Rússa sögð mikilvæg
Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.MYND/AP
Abbas forseti hefur víða farið síðustu daga til að reyna að koma friðarviðræðum á skrið á ný en ekkert hefur áunnist síðustu mánuði frá því deiluaðilar hittust á árangurslausum viðræðufundi í Bandaríkjnum í nóvember. Á fundi með Pútín Rússlandsforseta fyrir helgi kom fram sá vilji hjá Abbas að næsta viðræðulota yrði í Rússlandi í júní. Aðkoma Rússa að lausn deilumála í Miðausturlöndum er mikilvæg. Samband Rússa við Sýrlendinga er þar lykilatriði en mikilvægt er að hafa þá með í ráðum svo friður verði varanlegur.

Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hefur verið að miðla málum fyrir botni Miðjaðarhafs og átti fund með leiðtoga Hamas í Damaskus. Í morgun bar hann þau skilaboð frá honum að Hamas myndi fallst á að viðurkenna tilverurétt Ísraels og sætta sig við Ísraela sem friðsama nágranna á grundvelli friðarsamkomulags sem hefði landamæri frá 1967 að útgangspunkti. Eins að friðarsamkomulag yrði borið undir þjóðaratkvæði.

Í opinberri heimsókn Abbas til Túnis í gær ítrekaði forseti Palestínumanna svo að ekkert samkomulag yrði staðfest nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Með þessum tíðindum morgunsins frá Damaskus og yfirlýsingum Abbas frá Túnis virðist grundvöllur komin að einingu og sátt palestínumanna, bæði Hamas og Fatah um forsendur og útkomu friðarviðræðna. „Ég er byrjaður að verða bjartsýnn," segir Yassir Najjar, sendiherra Palestínumanna á Íslandi og lætur á sér heyra að þetta sé bjartasta vonarglætan í friðarviðræðum Ísraela og Palestínumanna í langan tíma.

Mahmoud Abbas kemur frá Túnis til Íslands í fyrramálið en heldur af landi brott annað kvöld á leið til fundar við George Bush Bandaríkjaforseta. Ferðin til Bandaríkjanna er til að tryggja aðkomu þarlendra að viðræðunum og með óbeinum hætti að fá þá til að þrýsta á ísraelsmenn í samningaviðræðunum. Leitar eftir stuðningi Íslendinga við friðarviðræður
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir heimsótti Vesturbakkann í fyrra.MYND/Pjetur
Abbas mun leita eftir stuðningi íslenskra stjórnvalda við friðarviðræðurnar og segir sendiherra palestínsku heimastjórnarinnar að Ísland geti lagt þar mikið af mörkum. „Íslendingar eru í vinasambandi bæði við Palestínumenn og Ísraela. Þeir eru því í góðri stöðu að miðla málum og tala við báða málsaðila. Það var einnig eftir því tekið að fyrsta opinbera heimsókn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem utanríkisráðherra var til Vesturbakkans, "segir Yassir Njjar, og bætir við: „Íslendingar hafa skilning á baráttu Palestínumanna enda börðust þeir fyrir sjálfstæði í hundrað ár. Okkar baraátta hefur staðið í 60 ár."

Mahmoud Abbas mun hitta Ólaf Ragnar Grímsson forseta í fyrramálið og snæða hádegisverð á Bessastöðum. Eftir hádegi hittir Abbas Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×