Innlent

Bera raungreinum við Háskólann á Akureyri vel söguna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ástríður Ólafsdóttir og Eyrún Elva Marinósdóttir.
Ástríður Ólafsdóttir og Eyrún Elva Marinósdóttir. MYND/Jóna Jónsdóttir

„Þetta kom í ótrúlega góðar þarfir, maður er náttúrulega með yfirdráttinn í botni eins og allir námsmenn," sagði Ástríður Ólafsdóttir, nemi í líftækni við Háskólann á Akureyri, í spjalli við Vísi en þær Eyrún Elva Marinósdóttir, samstúdína hennar og sjávarútvegsfræðinemi, hlutu 500.000 króna styrk hvor frá Hugviti eins og Vísir greindi frá í morgun.

„Líftækni fjallar í raun um notkun á hvers kyns lífverum í öllum mögulegum tilgangi, eins og t.d. við bjórbrugg," útskýrir Ástríður og bætir því við að hún hafi nú verið búin að ákveða að leggja stund á þetta nám fyrir ári. Ástríður ber raungreinakennslu við HA vel söguna, segir hana vera að miklu leyti verklega og nemendurnir fái að fikta í hlutunum. Líftæknin sé tiltölulega ný grein við skólann en þó stór hópur að útskrifast í vor.

Hugur Ástríðar stendur til framhaldsnáms í erfðafræði en hún hefur ekki gert upp við sig hvort það verði strax að lokinni BS-gráðu enda er hún á 1. ári enn sem komið er.

Sjávarútvegsfræðin með elstu brautum

Sjávarútvegsfræðineminn Eyrún Elva tekur undir það með Ástríði að raungreinakennslu hafi vaxið mjög fiskur um hrygg við háskólann þar nyrðra, t.d. sé tilgangurinn með styrkjum Hugvits að efla það.

„Sjávarútvegsfræðin er ein af elstu brautunum við HA, reyndar hafa verið gerðar breytingar á henni. Þetta er auðlindabraut sem skiptist í líftækni, sjávarútvegsfræði og orku- og umhverfisfræði," sagði Eyrún. Hún hefur ekki tekið neina ákvörðun um hugsanlegt framhaldsnám enn þá. „Það er mikilli viðskiptafræði blandað inn í sjávarútvegsfræðinámið hér við HA svo maður getur svo sem farið í hvað sem er eftir þetta," sagði hún og tók að skilnaði hjartanlega undir það með Ástríði að styrkurinn hefði komið í góðar þarfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×