Innlent

Össur sammála Þorgerði um stjórnarskrárbreytingu

MYND/GVA

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segist sammála Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um að breyta eigi stjórnarskránni til þess að greiða fyrir hugsanlegum aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Þorgerður Katrín viðraði þessa hugmynd sína í Silfri Egils í gær og nefndi að hugsanlega ætti að gera slíkar breytingar fyrir lok kjörtímabilsins.

Össur fjallar um málið á heimasíðu sinni og titlar sig elsta Evrópusinnann á Alþingi. Segist hann einnig sammála Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra um að gera þurfi vegvísi að aðildarumsókn. Össur segist ekki túlka orð Björns á þann veg að hann sé að skipta um skoðun á ESB heldur einungis þannig, að hann sé að leggja til ákveðna leið, sem hann telji færa, til að komast að niðurstöðu.

„Það þarf í sjálfu sér engar vangaveltur og litla vinnu til viðbótar um kosti og galla umsóknar. Öll gögn málsins liggja meira og minna fyrir, meðal annars af hendi þeirrar ágætu Evrópunefndar sem við Björn sátum báðir í.

Þess vegna tel ég að það væri heppileg aðferð að menn tækju upp hugmynd dómsmálaráðherra um vegvísi, lykju honum á 6-9 mánuðum, og vilji Íslendinga til umsóknar yrði síðan leiddur fram með hugmynd hans um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig væri það þjóðin sjálf, en hvorki alþingi né ríkisstjórn, sem tæki af skarið um hvort menn sæktu um - eða ekki. Er ekki gott fyrir alla að þetta mál yrði frá við næstu þingkosningar?" spyr Össur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×