Innlent

Samfylkingarþingmenn á móti hugmyndum um varalið lögreglu

Þingmenn Samfylkingarinnar eru mótfallnir hugmyndum dómsmálaráðherra um að skipa 240 manna varalið lögreglu. Ekki er heldur samstaða milli stjórnarflokkanna um örlög lögregluembættisins á Suðurnesjum.

Þetta hefur fréttastofa Stöðvar 2 eftir heimildum innan raða þingflokks Samfylkingarinnar. Samkvæmt þeim þá er Samfylkingin ósátt við fyrirhugaðar breytingar á lögregluembættinu á Suðurnesjum.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær hefur ríkisstjórnin samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra um breytingarnar en málið er stopp í þingflokki Samfylkingarinnar. Segja heimildir fréttastofu að verið sé að tefja málið á meðan formaðurinn leitar lausna sem sjálfstæðismenn geta sætt sig við.

Ósamstöðu stjórnarflokkanna má finna víðar. Dómsmálaráðherra stefnir að því að stofna 240 manna varalið lögreglu á þessu ári. Þetta kemur fram í skýrslu ríkislögreglustjóra um mannaflaþörf lögreglunnar sem fylgdi með sem viðauki við áfangaskýrslu ráðherra um stöðu lögreglumála.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem ráðherra talar fyrir stofnun varaliðs því það gerði hann einnig á síðasta þingi og fyrir daufum eyrum ríkisstjórnarinnar í haust samkvæmt heimildum fréttastofu. Síðasta vor spunnust miklar umræðum um málið og Samfylkingin lýsti sig andsnúna hugmyndum dómsmálaráðherra.

Ekkert varð úr varaliðinu en nú stefnir dómsmálaráðherra að því að setja ákvæðið inn í lögreglulögin við heildarskoðun þeirra. Við það eru margir þingmenn Samfylkingarinnar ósáttir og vilja samkvæmt heimildum fréttastofu að dómsmálaráðherra falli frá hugmyndum um varalið í eitt skipti fyrir öll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×