Innlent

Kom ekki að pukri RÚV

MYND/Anton

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra segist ekkert hafa haft með þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að gera að neita Vísi um upplýsingar um launakjör starfsmanna félagsins.

Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstri - grænna. Kolbrún benti á að Vísir hefði staðið í ströngu við að knýja fram upplýsingar um laun dagskrárstjóra sjónvarps og útvarps, en þar átti hún við Þórhall Gunnarsson og Sigrúnu Stefánsdóttur.

Kolbrún benti á að stjórnarandstaðan hefði fyrir harðfylgi í fyrra komið því í gegn að Ríkisútvarpið ohf. yrði sett undir upplýsingalög en útvarpsstjóri hefði engu að síður neitað Vísi um umbeðnar upplýsingar sem samkvæmt almennum skilningi upplýsingalaga ættu að vera til reiðu. Spurði Kolbrún hvort það væri með samþykki ráðherra að RÚV neitaði að láta upplýsingarnar af hendi. „Samþykkir ráðherra þetta pukur?" spurði Kolbrún.

Menntamálaráðherra kom í pontu og svaraði stutt og laggott nei. Kolbrún spurði þá ráðherra hvort hún væri þeirrar skoðunar að launakjör stjórnenda RÚV heyrðu undir upplýsingalög.

Þorgerður Katrín benti á að hluti af nýjum lögum um RÚV ohf. hefði verið að gera stofnunina sjálfstæða og þannig að hún lyti ekki boðvaldi ráðherra. Sagði hún úvarpsstjóra fara með málið. Enn fremur benti hún á að þeir einstaklingar sem ynnu hjá RÚV væru ekki sviptir rétti sínum til þess að leita með mál fyrir dómstóla.

Vísir hefur frá því í nóvember síðastliðnum beðið eftir upplýsingum um launakjör dagskrárstjóra RÚV, þeirra Þórhalls Gunnarssonar og Sigrúnar Stefánsdóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×