Innlent

Forseti ÖSE-þingsins kemur til landsins

Lennmarker ræðir meðal annars við Sturlu Böðvarsson, forseta Alþingis.
Lennmarker ræðir meðal annars við Sturlu Böðvarsson, forseta Alþingis. MYND/GVA

Forseti þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, Göran Lennmarker, kemur hingað til lands í dag og fundar með íslenskum embættismönnum og ráðmönnum.

Fram kemur í tilkynningu frá Alþingi að þetta sé í fyrsta sinn sem forseti ÖSE-þingsins sækir Ísland heim en forsetinn hefur lagt mikla áherslu á að efla tengsl við þau 56 þjóðþing sem eiga aðild að ÖSE-þinginu frá því hannn tók við embætti sumarið 2006.

Lennmarker mun eiga fund með Sturlu Böðvarssyni forseta Alþingis til að ræða málefni ÖSE-þingsins og hlutverk þess. Auk þess mun Lennmarker eiga fund með sendinefnd Íslands á ÖSE-þinginu, utanríkismálanefnd Alþingis og fulltrúum utanríkisráðuneytis.

Þá flytur Lennmarker erindi á fundi á Hótel Sögu í dag á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs. Þar fjallar hann um stjórnmálaástandið í Rússlandi og fordæmisgildi viðurkenningar á sjálfstæði Kosovo fyrir "frosin átök" í Austur-Evrópu þar sem Rússland á hagsmuna að gæta eins og í tilviki Nagorno-Karabakh héraðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×