Innlent

Ekkert við stefnu Björns varðandi Suðurnesjalögreglu að athuga

Forsætisráðherra var á Alþingi í dag hvattur til að höggva á hnútinn í deilunni um lögregluembættið á Suðurnesjum til þess að eyða óvissu fyrir starfsmenn. Ráðherra sagði máli í vinnslu og sagði ekkert að athuga við stefnu dómsmálaráðherra í málinu.

Bæði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Grétar Mar Jónsson, þingmaður frjálslyndra, spurðu ráðherra út í málið á þingi í dag.

Vísaði Guðni til þess að hann og flokksbróðir hans, Bjarni Harðarson, hefðu staðið fyrir fundi á Suðurnesjum í síðustu viku þar sem skorað var á ráðherra að hvöggva hnútinn. Deilan um að stía í sundur lögreglu og tolli á Suðurnesjum, sem náð hefðu góðum árangri saman við að sporna við innflutningi fíkniefna, væri mjög skrítin og hana þyrfti að leysa. Benti Guðni á að annar stjórnarflokkurinn sæti með frumvarp fjármálaráðherra en ríkisstjórnin hefði samþykkt það. Ráðherra bæri að höggva á hnútinn.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði engar deilur um að það ætti að styrkja og efla löggæsluna á Keflavíkurflugvelli. Hins vegar hefði verið mótuð sú stefna af hálfu dómsmálaráðherra að greina að lögreglu og toll og við þá stefnu væri ekkert að athuga. Verið væri að vinna í málinu og leiða það til lykta. Markmiðið væri að tryggja sem besta þjónustu en að það yrði gert á grundvelli eðlilegra fjárheimilda.

Um raunverulegt stjórnarfrumvarp að ræða?

Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurði hvort í raun og veru væri um að ræða stjórnarfrumvarp þar sem annar stjórnarflokkurinn, þingflokkur Samfylkingarinnar, hefði ekki afgreitt málið. Sagði hann mikla óvissu í málinu og að það þyrfti að fá það á hreint.

Forsætisráðherra svaraði því til að framgangur mála milli stjórnarflokkanna væri í föstum skorðum. Stjórnarfrumvarp þyrfti fyrst að fá samþykki í ríkisstjórn áður en það væri sent til þingflokka sem færu með gagnrýnum augum yfir málið. Það gæti tekið misjafnlega langan tíma að koma slíkum frumvörpum í gegn.

Hitt væri hins vegar nýtt að verið væri að rukka menn um frumvörp sem enn væru í umfjöllun þingflokka. Nefndi hann orkumálafrumvarp iðnaðarráðherra sem dæmi en það var mun lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokks en Samfylkingarinnar fyrr í vetur. Frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á tollalögum væri í eðlilegri meðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×