Innlent

Segir ráðherra ábyrgðarlausa

Páll Magnússon er bæjarritari Kópavogs og fyrrverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar.
Páll Magnússon er bæjarritari Kópavogs og fyrrverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar virðast ekki gera sér grein fyrir því að yfirlýsingar og athafnir þeirra hafa afleiðingar, að sögn Páls Magnússonar, bæjarritara Kópavogs og staðgengils bæjarstjóra.

,,Ábyrgðarleysi ráðherra virðist algjört," segir Páll í grein í Morgunblaðinu í dag.

Páll segir að fátt bendi til annars en að kreppa muni að almenningi og fyrirtækjum á næstu mánuðum. Atvinnuleysi sé spáð og fyrirtæki eigi erfitt með að fjármagna rekstur sinn. Að mati Páls ætti ríkisstjórn við ofangreindar aðstæður að leggja sig fram um að auka tiltrú erlendra aðila á íslensku efnahagsumhverfi. ,,Þvert á móti keppast ráðherrar og stjórnarþingmenn við að takast á um hin stærstu og smæstu mál."

Páll segir að ríkisstjórnin verði að láta lítt merkilega pólitíska stundarhagsmuni víkja fyrir hinu stóra viðfangsefni, sem felst í því að endurvekja tiltrú á íslensku efnahagslífi. ,,Þögn formanns Samfylkingarinnar í þjóðmálaumræðunni er síðan kapítuli útaf fyrir sig. Hefur formaðurinn ekkert fram að færa í efnahagsmálum?"

Páll var aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur þegar hún var iðnaðarráðherra. Frá 2006 hefur hann verið bæjarritari Kópavogs og jafnframt staðgengill bæjarstjóra. Páll var stjórnarformaður Landsvirkjunar 2007-2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×