Innlent

Útsvarið á Akureyri gæti numið 13,28% á næsta ári

Gert er ráð fyrir útsvarsprósentu 13,03% á Akureyri á næsta ári í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun áætlun en tillaga verður gerð í bæjarstjórn um að hækka útsvarið í 13,28%.

Álagningaprósenta fasteignaskatta hækkar um 10% en ekki er gert ráð fyrir að stofn fasteignamats hækki. Skerðing jöfnunarsjóðs er áætluð 150 milljónir kr. milli ára.

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2009 var unnin af oddvitum allra flokka í bæjarstjórn ásamt starfsmönnum. Haft var að leiðarljósi að verja grunnstoðir í þjónustu bæjarfélagsins í þeim efnahagsþrengingum sem nú ganga yfir þjóðfélagið.

Sérstaklega var horft til þess að halda vel utan um starfsemi grunn- og leikskóla bæjarins, sem og félagsþjónustuna, og einnig að verja störf og mannaflsfrekar framkvæmdir eftir því sem kostur er. Í ljósi stöðunnar er betra að búa við tímabundinn hallarekstur en að skera niður í mannafla og framkvæmdum. Það er gert í þeirri von að staðan verði betri á árinu 2010.

Fjárhagsáætlunin verður lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag, þriðjudaginn 16. desember 2008 og gert er ráð fyrir að síðari umræða verði 20. janúar 2009.

Forsendur áætlunarinnar er að hér verði 7% meðalverðbólga á árinu og að íbúum fjölgi um 200 manns. Meðal þess sem finna má í áætluninni er að tekjur aðalsjóðs verða rúmir 9,8 milljarðar kr en heildargjöld tæpir 10,7 milljarðar kr.. Fjármunatekjur aðalsjóðs eru áætlaðar tæpir 1,2 milljarðar kr..

Leikskólagjöld og frístund hækka ekki en almennt hækka gjaldskrár um 10%, þar má nefna hækkun á fæði í leik- og grunnskólum, Hlíðarfjalli og Sundlaug. Sorphirðugjald hækkar um 2.700 kr. Þrátt fyrir miklar almennar kostnaðarhækkanir er reynt að stilla hækkunum á gjaldskrám mjög í hóf.

Í almennum rekstrargjöldum stofnana og deilda er skorið niður eins og hægt er og horft þá sérstaklega til þátta eins og ferðakostnaðar, skrifstofuvara, kaupa á áhöldum og munum o.s.frv. Samtals er áætlaður sparnaður hér 200-300 milljónir króna.

Framkvæmdaáætlun ársins 2009 hefur verið endurskoðuð. Opnun Hofs er frestað til mars/apríl 2010 og sama gildir um opnun íþróttamiðstöðvar við Giljaskóla. Framkvæmdir á KA-velli eru settar í bið, en áfram er ráðgert að opna Naustaskóla haustið 2009. Framkvæmdum vegna Landsmóts UMFÍ í júlí 2009 verður haldið áfram samkvæmt áætlun.

Samtals eru framkvæmdir áætlaðar tæpir 1,8 milljarðar kr. í Aðalsjóði og tæpir 2,6 milljarðar í samstæðunni allri og er það nokkur lækkun frá þriggja ára áætlun þar sem gert var ráð fyrir framkvæmdum fyrir röska 3,0 milljarða króna á árinu 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×