Innlent

Breiðavíkursamtökin opin áhugafólki um barnaverndarmál

Bárður Ragnar Jónsson er formaður Breiðavíkursamtakanna.
Bárður Ragnar Jónsson er formaður Breiðavíkursamtakanna. MYND/Anton Brink

Bárður Ragnar Jónsson var kjörinn formaður Breiðavíkursamtakanna á aðalfundi nú um helgina.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá samtökunum voru samþykktar breytingar á lögum félagsins sem fela það í sér að samtökin eru nú opin öllu áhugafólki um barnaverndarmál og sögu þeirra. Er samtökunum ætlað að verða málsvari og hagsmunasamtök fólks sem vistað hefur verið á vegum hins opinbera á hinum ýmsu fóstur- og vistheimilum á öllum tímum.

Bárður Ragnar sagði eftir kjörið að mikilvægasta málið sem samtökin þyrftu nú að vinna að er að fylgja eftir væntanlegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar vegna væntanlegra bóta til Breiðavíkurdrengja. Það væri miður ef þessir menn, sem allir eru nú komnir á miðjan aldur, sætu eftir með þá tilfinningu að samfélagið hafi brugðist þeim öðru sinni. Eins og fram kom á Vísi í morgun er ekki útlit fyrir að frumvarpið líti dagsins ljós á þessu þingi.

Auk Bárðar sitja þeir Georg Viðar Björnsson, Þór Saari, Friðrik Þór Guðmundsson og Ari Alexander Ergis Magnússon í stjórn samtakanna en varastjórnarmenn eru Gísli Már Helgason og Sigurgeir Friðriksson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×