Innlent

Birnan var tæp 150 kíló

Birnan sem felld var í við Hraun á Skaga í Skagafirði í gær reyndist 147 kíló við vigtun. Forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra segir það sýna að líkamsástand dýrsins hafi ekki verið gott.

Eftir að birnan var skotin á flótta var hún færð upp á bíl og ábúandi á Hrauni 3, Jóhann Rögnvaldsson, ók með hana á Sauðárkrók þar sem hún er geymd í húsnæði Loðskinns. Þar verður hún rannsökuð frekar eins og fyrri hvítabjörninn sem felldur var í Skagafirði fyrir um tveimur vikum að sögn Þorsteins Sæmundssonar, forstöðumanns Náttúrustofu Norðurlands vestra. „Við nýtum þetta leiðindaatvik til þess að afla eins mikilla upplýsinga og við getum líkt og í fyrra tilvikinu," segir Þorsteinn. Sérfræðingar sjá um að rannsaka dýrið í dag og á morgun.

Hann segir birnuna hafa verið 147 kíló að þyngd. Aðspurður hvað það segi mönnum segir Þorsteinn að dýrið hafi verið ungt og að það hafi ekki verið í góðum holdum. „Líkamsástand dýrsins var ekki gott," segir Þorsteinn.

Aðspurður hvað verði um dýrið segir Þorsteinn að það sé umhverfisráðuneytisins að ákveða það. Margir hafi lýst áhuga á að fá dýrið og hann eigi frekar von á því að það verði uppstoppað líkt og björninn sem felldur var á Þverárfjalli fyrir tveimur vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×