Innlent

Ofbeldisbrot algengasti brotaflokkur Kvíabryggjufanga

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins.
Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins. MYND/Gunnar V. Andrésson

Flestir þeirra fanga sem afplána dóma sína í fangelsinu Kvíabryggju í Grundarfirði sitja þar vegna ofbeldisbrota, átta af 21 fanga. Næstalgengasti brotaflokkurinn eru fíkniefnabrot en sjö fangar afplána slíka dóma.

Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins, segir engan fanganna á Kvíabryggju hafa afplánað allan dóminn þar, slík vistun samræmdist ekki stefnu stofnunarinnar um uppbyggingu umbunarkerfis í fangelsum ríkisins. Páll segir fanga hefja afplánun sína í lokuðum fangelsum en þeim, sem standi sig vel þar, sé umbunað með vistun í opnu fangelsi á borð við Kvíabryggju.

„Ýmis önnur úrræði koma jafnframt til álita til þess að umbuna föngum sem sýnt hafa af sér fyrirmyndarhegðun. Má þar nefna vistun á Sólheimum, vinnu og nám utan fangelsa auk vistunar á áfangaheimili Verndar," útskýrir Páll.

Hann segir þessi úrræði mikilvæg í þeirri viðleitni Fangelsismálastofnunar að betra fanga og draga úr líkum á að þeir haldi áfram brotum er afplánun lýkur. Standi fangar sig illa í afplánun fyrirgeri þeir hins vegar rétti sínum til hvers konar umbunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×