Innlent

Radavarar gagnslausir á Akranesi

Ökumenn sem telja sig geta sloppið frá laganna vörðum á Akranesi með því að nota svokallaðan radarvara geta gleymt því nú því lögreglan þar á bæ hefur fest kaupa nýju laser-hraðamælingartæki.

Eftir því sem segir í dagbók lögreglunnar getur tækið mælt hraða bifreiðar í allt að kílómetra fjarlægð. Sérstökum ljóspunkti er miðað á ökutæki og hraðinn mældur þannig. Það gerir radarvara gagnslausa nema svo vilji til að ljóspunkturinn lendi beint á radarvaranum en til þess eru sáralitlar líkur.

Lögregla segir handtækið meðal annars hentugt til að ná til ökumanna sem hafa stundað spyrnur og hraðakstur á íbúðagötum og hefur það verið mikið notað í kringum grunnskóla bæjarins þar sem hámarkshraði er 30 km.

Nokkur fjöldi ökumanna hefur fengið að kenna á tækinu undanfarnar vikur að sögn lögreglunnar á Akranesi. Einn var til dæmis tekinn á 70 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km og hlaut hann að launum 55 þúsund króna sekt og þriggja mánaða sviptingu ökuleyfis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×