Innlent

Nokkuð frá markmiðum WHO um bólusetningu aldraðra

Íslendingar eiga nokkuð í land með að ná því markmiði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að á árinu 2010 fái að minnsta kosti þrír af hverjum fjórum þeirra sem eru eldri en 65 ára árlega bólusetningu gegn inflúensu. Þetta kemur fram í Farsóttarfréttum Landlæknisembættisins.

Þar er bent á að sala á inflúensubóluefnum á Íslandi hafi verið með því hæsta sem þekkist en þar sem skráning á bólusetningum hér á landi hafi til þessa ekki verið miðlæg sé ekki vitað hver notkunin hafi verið verið hjá einstaklingum í áhættuhópum, þar á meðal einstaklingum eldri en 60 ára.

Öllum einstaklingum eldri en 60 var boðið upp á inflúensubóluefni ókeypis í vetur og var vonast til að auka mætti þekjun inflúensubólusetningar hjá einstaklingum 60 ára og eldri og hjá skilgreindum áhættuhópum.

Alls voru rúmlega 17.100 einstaklingar í áhættuhópum bólusettir síðastliðið haust og þar af voru 15.854 einstaklingar 60 ára og eldri. Mest var þekjunin hjá einstaklingum 70 ára og eldri en einungis 32 prósent af öllum 60 ára og eldri voru bólusettir og því nokkuð í land að markmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar verði náð. „Þó er hugsanlegt að sóttvarnalækni hafi ekki borist tilkynningar um allar bólusetningar þessa aldurshóps og hlutfallið sé því í raun hærra," segir í Farsóttarfréttum.

Sóttvarnalæknir segir fulla ástæðu til að vekja athygli á því að bólusetning geti verið gagnleg, jafnvel þótt inflúensa hafi greinst í samfélaginu. Því sé óráðlegt að takmarka inflúensubólusetningu við stuttan tíma á haustin og áréttað að einstaklingar eigi rétt á bólusetningu enda þótt inflúensufaraldur sé hafinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×