Innlent

Óvissa um borgarstjórastólinn

Algjör óvissa ríkir um það hver tekur við embætti borgarstjóra af Ólafi F. Magnússyni á næsta ári. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, vill að sá sem sest stól borgarstjóra leiði ennfremur flokkinn í næstu borgarstjórnarkosningum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur hins vegar lýst yfir að þetta sé hans síðasta kjörtímabil.

Sjálfstæðismenn fá borgarstjórastólinn á næsta ári samkvæmt málefnasamningi þeirra við Ólaf F. Magnússon, núverandi borgarstjóra.

Ekki liggur fyrir hver tekur við embættinu af Ólafi en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, hefur helst verið nefndur í því samhengi. Staðan hans veiktist þó veruleg í kjölfar REI-málsins og sjálfur hefur hann lýst því yfir að hann ætli sér að fara yfir stöðuna.

Geir H. Haarde, formaður sjálfstæðisflokksins, vill að sá sem sest í borgarstjórastólinn leiði flokkinn ennfremur í næstu kosningum. Þetta kom fram í máli hans á fundi í Valhöll á laugardaginn.

Vilhjálmur hefur þó sjálfur lýst því yfir að hann ætli sér ekki að bjóða sig fram í næstu kosningum. Samkvæmt þessu er því frekar ólíklegt að Vilhjálmur taki við borgarstjórastólnum á næsta ári.

Vilhjálmur vildi lítið tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband við hann í dag. Hann sagði enn vera hugsa málið en að endanleg ákvörðun verði tekin með góðum fyrirvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×