Innlent

Leiðbeinendur Vinnuskólans lögðu niður störf

Leiðbeinendur hjá Vinnuskóla Reykjavíkur lögðu niður störf í hádeginu. Nemendur Vinnuskólans verða í einhverjum tilfellum sameinaðir í hópa og vinnu haldið áfram, en ljóst er að margir þeirra verða sendir heim.

Vinnustöðvunin tók gildi klukkan tólf á hádegi. Vilja leiðbeinendur með þessu vekja athygli á óviðunandi lauankjörum en þeir halda því fram að leiðbeinendur séu skráðir í rangan launaflokk. Eru launin í sumum tilvikum lægri en fullar atvinnuleysisbætur.

Leiðbeinendur ætla að funda í dag og safnast saman í Ráðhúsinu klukkan tvö og afhenda borgaryfirvöldum kröfur sínar. Guðrún Þórsdóttir, skólastjóri Vinnuskóla Reykjavíkur, segist styðja leiðbeinendur í baráttu sinni fyrir bættum launakjörum. Hún styður þó ekki þá ólöglegu vinnustöðvun sem leiðbeinendurnir hafa boðað.

Vinnustöðvunin stendur einungis yfir í dag. Ekki er vitað hversu margir leiðbeinendur leggja niður störf en um 130 leiðbeinendur af rúmlega 160 hafa ritað nafn sitt á undirskriftalista þar sem kröfur leiðbeinendanna eru tíundaðar. Í einhverjum tilfellum verða nemendurnir sendir heim en sums staðar verða hópar sameinaðir. Fer það allt eftir því hversu margir leiðbeinendur leggja niður störf.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×