Erlent

Slökkt á ólympíueldinum í París - fjórir handteknir í mótmælum

Ákveðið var að slökkva á ólympíueldinum í París fyrir stundu en hlaupa átti með hann um götur borgarinnar áður en hann yrði fluttur vestur um haf á leið til Peking. Ekki liggur fyrir hvers vegna þetta var gert en farið var með kyndilinn inn í rútu.

Mikill viðbúnaður var í París í morgun vegna fyrirhugaðra mótmæla gegn framferði Ólympíumótshaldaranna Kínverja í Tíbet í tengslum við komu eldsins. Voru hundruð lögreglumanna kölluð til til þess að verja eldinn en búist hafði verið við svipuðum mótmælum í París og í Lundúnum í gær. Þar voru hátt í 40 manns handteknir fyrir að reyna að hrifsa ólympíueldinn úr höndum hlaupara.

Það var fyrrverandi frjálsíþróttamaðurinn Stephane Diagana sem hóf hlaupið með kyndilinn í París um hálfellefu í morgun að íslenskum tíma en um hálftíma síðar var ákveðið að slökkva á eldinum þegar verið var að hlaupa með hann með fram Signu. Skömmu áður höfðu fjórir menn verið handteknir fyrir að reyna að reyna að stöðva hlauparann á ferð sinni með kyndilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×