Innlent

Samningur Reykjavíkurborgar um skógrækt dreginn til baka

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfis- og samgönguráðs, og Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, við undirritun samningsins 9. júní sl. sem nú hefur verið dreginn til baka MYND / www.rvk.is
Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfis- og samgönguráðs, og Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, við undirritun samningsins 9. júní sl. sem nú hefur verið dreginn til baka MYND / www.rvk.is

Samningur sem Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, undirritaði við Skógræktarfélag Reykjavíkur í júní síðastliðnum uppfyllir ekki efniskröfur sem borgin gerir til slíkra gerninga og verður því dreginn til baka eftir viðræður við forsvarsmenn Skógræktarfélgsins.

Þetta kemur fram í svari sem Örn Sigurðsson, skrifstofustjóri umhverfis- og samgöngusviðs, til innkauparáðs Reykjavíkur eftir fyrirspurn frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni, fulltrúa Samfylkingar í ráðinu, en hann spurðist fyrir um hvort samkomulagið stæðist innkaupareglur.

,,Það er gott að augu meirihlutans hafi verið opnuð fyrir þessu en svo virðist sem Gísli Marteinn hafi ætlað að taka nokkur græn skref í einu stökki og orðið dálítill fótaskortur í leiðinni," segir Stefán Jóhann.

Samkomulagið gerði ráð fyrir að kostnaður við verkefnið gæti orðið 50 milljónir króna á þremur árum þótt aðilar skuldbundu sig aðeins til eins árs í byrjun. Litið er á samkomulagið sem lið í Grænum skrefum sem felast meðal annars í gróðursetningu hálfrar milljónar trjáa í landi Reykjavíkur til aukinnar skjólmyndunar, meiri skógræktar og bindingar koltvísýrings.

Þegar samkomulagið var kynnt vöknuðu spurningar um hvort verk af þessu tagi væri ekki útboðsskylt, en skylt er að bjóða út verk ef samningsfjárhæð er hærri en 28 milljónir króna. Auk þess þótti vafi leika á umboði pólitísks kjörins formanns umhverfis- og samgöngusviðs til að undirrita slíkar fjárskuldbindingar. Nú hefur samkomulagið hins vegar verið dregið til baka og verður þá væntanlega gert nýtt samkomulag við Skógræktarfélag Reykjavíkur sem uppfyllir reglur Reykjavíkurborgar.

Hvorki náðist í Ellý Katrínu Guðmundsdóttir, sviðsstjóra, eða Örn Sigurðsson, skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs, við vinnslu fréttarinnar.






Tengdar fréttir

Sókn í gróðursetningu trjáa í Reykjavík

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar hafa gert með sér samning um gróðursetningu 460 þúsund skógarplantna í Heiðmörk, Esjuhlíðum og Úlfarsfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×