Innlent

Vilja að Alþingi komi saman á næstu dögum

Þingflokkur Vinstri grænna fer fram á að Alþingi komi saman eftir verslunarmannahelgi til að fjalla um stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum og hvað vænlegast er að gera til að verja þjóðarbúið frekari áföllum og endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

Þetta kemur fram í bréfi sem þingflokkurinn hefur sent Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Sturlu Böðvarssyni, forseta Alþingis, Gunnari Svavarssyni, formanni fjárlaganefndar, og Pétri Blöndal, formanni efnahags- og skattanefndar.

Á fundi sínum í morgun samþykkti þingflokkurinn einnig ályktun um stöðu efnahagsmála. Þar segir að þær ,,alvarlegu" horfur sem nú eru í efnhags- og atvinnumálum hafi verið fyrirsjáanlegar og flokkurinn hafi varað við þeim allt frá árinu 2004.

,,Hinar ofvöxnu stóriðjufjárfestingar, skattalækkanir á þenslutímum, skuldsett útrás og gáleysisleg framganga nýeinkavæddra banka leiddi ásamt fleiru af sér þenslu, verðbólguþrýsting og geigvænlegan viðskiptahalla sem að lokum hlaut að verða til stórfelldra vandræða í efnahags- og atvinnulífinu. Hagvöxtur reyndist í allt of miklum mæli byggður á erlendri lántöku og aukinni skuldsetningu þjóðarbúsins og var um of neyslu- og eyðsludrifinn."

Þingflokkurinn átelur ráðherra og þingmenn stjórnarflokkanna fyrir að eyða orku á miðju sumri um Evrópumál og segir Samfylkinguna gera út á erfiðleika þjóðarbúsins og þrýsta á um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Vinstri grænir telja allt tal um upptöku evru og inngöngu í ESB vera flótta frá veruleikanum.

,,Þingflokkur Vinstri grænna varar við því að kreppan sé mögnuð upp með óhóflegu svartsýnistali og grafið sé undan tiltrú á gjaldmiðilinn og möguleika þjóðarinnar til að standa á eigin fótum og þróa hér áfram á sjálfstæðum forsendum farsælt og blómlegt velferðarsamfélag í góðri sátt við náttúruna og sem byggir á grunngildum um sjálfbæra þróun."

Að mati VG ríkir ráðleysi og deilur innan ríkisstjórnarinnar sem geri lítið annað en að auka vandann.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×