Innlent

Móðir fatlaðs drengs: Úrræðaleysi eykur þunglyndi

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Birna og Arnar sonur hennar.
Birna og Arnar sonur hennar.

,,Það er lágmark að lögum sé framfylgt. Í þeim segir að allir eigi rétt á búsetu og vinnu við hæfi," segir Birna Sigbjörnsdóttir, móðir fatlaðs drengs á Suðurnesjum.

Birna er fyrrum stjórnarmaður í Þroskahjálp á Suðurnesjum. Henni þykir afar sorglegt hvernig komið er fyrir málefnum fatlaðra á Reykjanesi. ,,Það er lágmark að lögum sé framfylgt. Í þeim segir að allir eigi rétt á búsetu og vinnu við hæfi," segir Birna og kallar eftir úrræðum í málaflokknum.

Birna er ekki ein um að þykja núverandi staða óásættanleg. Í seinustu viku skrifaði Hafrún Erla Jarlsdóttir móðir fatlaðs barns í Reykjanesbæ grein í Víkurfréttir þar sem hún segir neyðarástand ríkja í málefnum fatlaðra á Suðurnesjum.

Foreldrar hætta að vinna til að vera með börnunum

,,Mér skilst að yfir 20 einstaklingar á aldrinum 18-44 ára séu á biðlista eftir búsetuúrræðum hér á Reykjanesi og það er ekkert verið að gera. Ástandið er það skelfilegt að fólk er farið að hætta að vinna til að vera heima með börnunum sínum vegna þess að það er ekkert annað í boði," segir Birna og bætir við að foreldrar horfi fram á að börnin endi í þunglyndi og depurð á baki foreldra sinna.

Fátt um svör

Að mati Birnu er sonur hennar fullfær til að vinna en honum bjóðist ekki neitt að gera og af þeim sökum fari hann varla út úr húsi. Nýverið athugaði Birna með atvinnuúrræði og hringdi á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi. Þar var fátt um svör og hún jafnframt spurð af því hvort að henni dytti sjálfri einhver úrræði í hug.

,,Við erum týnd"

Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi vinnur að málefnum fatlaðra í gamla Reykjaneskjördæminu sem inniheldur meðal annars sveitarfélög á Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu að undanskilinni Reykjavík.

Svæðisskrifstofan er til húsa í Hafnarfirði og segir Birna ekkert útibú vera í að á Reykjanesi þrátt fyrir að íbúðafjöldi svæðisins sé svipaður og á Akureyri. Hún segir starfsfólk skrifstofunnar í Hafnarfirði sjálfsagt vera að gera sitt besta en ,,þau er ekkert hér suður frá hjá okkur. Við erum týnd."


Tengdar fréttir

Kerfið er á hraða snigilsins

Foreldraráðgjafi Þroskahjálpar á Suðurnesjum segir að ástandið á svæðinu sé afar slæmt. ,,Kerfið er á hraða snigilsins og fylgir ekki eftir þörfinni hverju sinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×