Innlent

Rannsaka hvernig þróa megi samstarf í öryggismálum

Thorvald Stoltenberg.
Thorvald Stoltenberg.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna hafa ákveðið að láta gera óháða rannsókn á því hvernig þróa megi samstarf landanna í utanríkis- og öryggismálum á næstu 10-15 árum.

Hefur Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, verið fenginn til að hafa umsjón með gerð rannsóknarinnar, sem á að vera lokið fyrir árslok.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að tilgangurinn með rannsókninni sé að kanna með hvaða hætti styrkja megi samstarf Norðurlandanna til að takast á við utanríkis- og öryggistengd mál, á Norðurslóðum sem og annars staðar í heiminum.

Norrænu utanríkisráðherrarnir benda á að norrænt samstarf hafi reynst vel þótt aðstæður breytist og því sé áhugi á að þróa það enn frekar. Stoltenberg til aðstoðar við skýrslugerðina verður norrænn ráðgjafarhópur sem í munu eiga sæti tveir þátttakendur frá hverju norrænu ríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×