Innlent

Niðurskurður til framhaldsskólanna mikið áhyggjuefni

Það er mikið áhyggjuefni að í breytingatillögum við fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár sé gert ráð fyrir niðurskurði í fjárveitingum til framhaldsskóla um meira en hálfan milljarð. Þetta segtir í ályktun Félags framhaldsskólakennara. Kennarar segja að umsóknir um nám í framhaldsskólum eftir áramót séu mun fleiri en undanfarin ár. Það sé vandséð hvernig skólar geti innritað fleiri nemendur á sama tíma og fjárveitingar séu skornar niður eins og lagt sé til.

Framhaldsskólakennarar benda á að í umræðu um breyttar forsendur í ríkisfjármálum hafi komið skýrt fram að nauðsynlegt sé að verja menntun og skólastarf fyrir áföllum. Við þær erfiðu aðstæður sem séu framundan er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að skólar standi opnir öllum sem þangað vilji leita.

Þá segja kennarar að framhaldsskólar hafi verið reknir með miklu aðhaldi í mörg ár. Margir telji að ekki sé hægt að ganga lengra í þá átt. Ef breytingatillögurnar nái fram að ganga sé illa komið fyrir framhaldsskólum landsins.

Félag framhaldsskólakennara leggur því fast að ráðherrum, fjárlaganefnd, menntamálanefnd og öllum þingmönnum að sjá til þess að framhaldsskólar fái nauðsynlegt fjármagn í þeim erfiðu aðstæðum sem eru framundan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×