Innlent

Látnir hirða upp plastpoka

Hún var heldur háðugleg meðferðin sem ungir karlmenn fengu á dögunum af hálfu lögreglunnar á Selfossi eftir sérkennilegt uppátæki þeirra.

Munu þeir hafa skemmt sér við það þegar þeir óku um Langholt á Selfossi að láta rúllast út af plastpokarúllu á akstrinum. Til þeirra sást og náði lögregla til þeirra og gerði þeim að hirða upp pokana. Þeim var ekki skemmt við það en höfðu ekki annan kost. Þeir uppskáru svo háð frá öðrum vegfarendum sem til sáu að sögn lögreglu.

Þá fékk lögreglan á Selfossi kæru í síðustu viku vegna manns sem hafði gengið út úr verslun Bónuss með fulla körfu af varningi. Málið er í rannsókn þar sem meðal annars er verið að bera kennsl á manninn í eftirlitsmyndakerfi verslunarinnar. Allt bendir til að þarna hafi verið að verki aðili búsettur á höfuðborgarsvæðinu að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×