Innlent

Samfylkingarfólk skoðar neðri Þjórsá

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna.
Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna.

Á fjórða tug Samfylkingarfólks sem styður verndun neðri Þjórsár heimsækir í kvöld íbúa á svæðinu og fer í skoðunarleiðangur um svæðið sem fer undir vatn ef virkjunin verður að veruleika. Virkjunaráform í neðri Þjórsá hafa mætt andstöðu heimamanna.

,,Aðaltilgangurinn með ferðinni er að tala saman um framtíð svæðisins og möguleika þess. Ungir jafnaðarmenn hafna fyrirhuguðum virkjunum í Þjórsá og standa með íbúum sem vilja ekki uppistöðulón. Það hefur reyndar margoft komið fram í máli forystufólks Samfylkingarinnar að eignarnám komi ekki til greina til að af virkjunum verði og margir innan flokksins hafna virkjunaráformum eða hafa um þau sterkar efasemdir," segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna, og bætir við að einn þeirra sé Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sem leiddi lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í síðustu þingkosningum.

Anna Pála gerir einnig athugasemdir við framgöngu Landsvirkjunar í málinu og segir að opinber fyrirtæki eigi ekki að geta lofað skattpeningum almennings í hluti á borð við gsm-samband og betri vegi í skiptum fyrir að fá að virkja. ,,Íbúarnir við Þjórsá hafa hvorki kynningarfulltrúa, verkfræðinga né lögfræðinga í fastri vinnu og eru því í erfiðri aðstöðu. Fólk er líka kannski óöruggt um jarðirnar sínar og samningsstöðu gagnvart Landsvirkjun og hvort það geti tapað peningum ef það vill ekki semja," segir Anna Pála.

Ferðin verður farin frá Hallveigarstíg 1 klukkan fimm í dag. Boðið verður upp á súpu og brauð á lífræna búinu Skaftholti í Gnúpverjahreppi og fundað með íbúum og félögum í Sól á Suðurlandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×