Innlent

Vinir Tíbets tendra kyndil við kínverska sendiráðið

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.

Félagið Vinir Tíbets stendur fyrir mótmælum við kínverska sendiráðið klukkan 17:30 í dag. Tilgangurinn er að vekja athygli á því að hætt hafi verið við að hlaupa með ólympíueldinn um þau svæði Tíbets sem urðu fyrir barðinu á jarðskjálftanum 12. maí.

„Þeir styttu ferðina með kyndilinn og fara í gegnum höfuðborg Tíbets í stað þess að fara um skjálftasvæðin. Það fær enginn að vita hvað varð um fórnarlömb skjálftans í Tíbet," segir Birgitta Jónsdóttir, formaður félagsins. „Markmiðið er að kveikja á kyndlinum í dag fyrir Tíbet af því að þeirra teymi fær ekki að taka þátt í Ólympíuleikunum undir flaggi Tíbets," segir hún enn fremur.

„Við ætlum að hittast fyrir utan sendiráðið, hrópa þar slagorð og kveikja á kyndlinum. Ætli við bíðum svo ekki til klukkan sex, þá eru flestir búnir í vinnunni, og röltum þá af stað niður að Stjórnarráði. Ég efast um að nokkur verði þar en þetta er fyrst og fremst táknrænt."

Birgitta segir á bloggsíðu sinni að hún vonist eftir betri þátttöku nú en í undanförnum mótmælum. Þá heldur félagið opinn fund á Kaffi Hljómalind á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×