Innlent

Lyfjakostnaður TR jókst um 14% milli ára

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins vegna lyfja á fyrsta þriðjungi ársins jókst um 14% miðað við sama tíma í fyrra, eða um 308 milljónir króna.

Þetta kemur fram á heimasíðu stofnunarinnar. Enn fremur segir þar að kostnaður TR vegna lyfja hafi numið 2.583 milljónum króna á fyrsta þriðjungi ársins. Skýringar kostnaðaraukningarinnar eru að mati Tryggingastofnunar einkum tvær, aukin lyfjanotkun og lágt gengi íslensku krónunnar, en verð meirihluta lyfja er skráð í evru og danskri krónu.

Lyfjanotkun hefur, að sögn TR, aukist um 8% sé miðað við fjölda skilgreindra dagsskammta en kostnaður stofnunarinnar hefur aukist mest vegna flogaveikilyfja, geðrofslyfja, þunglyndislyfja og lyfja við ofvirkni.

Guðrún Gylfadóttir, deildarstjóri lyfjadeildar Tryggingastofnunar, segir aukna lyfjanotkun eðlilega með tilliti til hækkandi aldurs þjóðarinnar. Þó hafi aukningin verið heldur meiri en fyrir fram hafi verið gert ráð fyrir. „Notkun blóðþrýstingslyfja hefur sérstaklega aukist,“ segir Guðrún og bætir því við að einnig megi skýra hina auknu notkun með því að verið sé að nota geðrofslyf í auknum mæli til meðferðar á þunglyndi og flogaveikilyf við taugaverkjum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×