Innlent

Starfsmenn með doktorspróf fjölmennastir við kennslu í háskólum

MYND/GVA

Háskólakennurum fjölgaði um 1,3 prósent á milli áranna 2006 og 2007 samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Þeir voru um 2050 í nærri 1340 stöðugildum haustið 2006 en voru orðnir um 25 fleiri í nærri 1390 stöðugildum í fyrrahaust.

Alls reyndust starfsmenn skóla á háskólastigi í nóvember í fyrra nærri þrjú þúsund og hafði fækkað eilítið eða um 1,4 prósent. Tölur Hagstofunnar sýna enn fremur að stundakennarar eru fjölmennir í háskólum landsins, en rúmlega helmingur er aðjúnktar og lausráðnir stundakennarar. Prófessorar, dósentar og lektorar eru á bilinu 11-13 prósent háskólakennara hver starfsstétt fyrir sig. Samtals eru stöðugildi allra þessara starfshópa við kennslu um 92 prósent en um átta prósent stöðugilda við kennslu eru mönnuð af ýmsum sérfræðingum, sérhæfðu starfsfólki og stjórnendum.

Enn fremur kemur í ljós að starfsmenn með doktorspróf séu í þriðjungi stöðugilda við kennslu og eru því fjölmennasti hópur starfsmanna við kennslu sé miðað við stöðugildi. Háskólakennarar sem einungis hafa grunnpróf af háskólastigi eru fjölmennasti hópurinn þegar einstaklingar eru taldir, eða 37 prósent, en stöðugildi þeirra eru nærri 29 prósent af stöðugildum starfsmanna við kennslu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×