Innlent

Sektaður fyrir bjórauglýsingar í tímariti

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt framkvæmdastjóra Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar til þess að greiða 300 þúsund krónur í sekt vegna tveggja bjórauglýsinga. Þær birtust í blaðinu Birtu í janúar og mars á árinu 2006.

Framkvæmdastjórinn neitaði sök og sagðist hvorki hafa gefið fyrirmæli né samþykkt birtingu auglýsinganna en verið var að auglýsa þorrabjór og páskabjór. Þetta hefði verið alfarið á vegum markaðsdeildar fyrirtækisins.

Héraðsdómur komst að því að birting auglýsinganna hefði brotið í bága við áfengislög og þar sem fyrirtækið hefði verið tilgreint í auglýsingunum bæri hann sem framkvæmdastjóri þess ábyrgð á þeim. Var hann sektaður um 300 þúsund krónur en þarf að sitja í fangelsi í 22 daga hafi hann ekki greitt sektina innan fjögurra vikna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×